Hagnýtar upplýsingar

Afmæli

Þegar barn á afmæli er það í aðalhlutverki á deginum sínum.  Barnið býður upp á ávexti í samverustund.  Vinsamlegast ekki senda börnin með veitingar í leikskólann.

Að byrja í leikskóla

Við bjóðum nýja nemendur og foreldra þeirra velkomin í nýja leikskólann þeirra.

Að byrja í leikskóla er stórt skref í lífi barns og foreldra. Því er mikilvægt að aðlögun takist vel og barnið uppgötvi hið nýja umhverfi á rólegan hátt og foreldrarnir fái tækifæri til að kynnast starfsemi skólans sem og kennurum.

Heimaheimsókn er ein leið til að undirbúa barn og foreldra undir komuna í leikskólann. Leikskólastjóri og deildarstjóri þeirrar deildar sem barnið er að byrja á koma heim til barnsins í heimsókn. Foreldrum eru færðar helstu upplýsingar um leikskólann og er spjallað við barnið um leikskólann. Barninu er færð bók með myndum sem eru úr leikskólastarfinu

Leikskólataskan

Leikskólinn er vinnustaður barnanna.  Þess vegna er mikilvægt að þau séu í „vinnufötum", þ.e.a.s. fötum sem þola bletti eftir málningu eða útivinnu.  Mikilvægt er að fötin séu þægileg og hefti ekki hreyfingar barnanna.  Nauðsynlegt er að barnið hafi með sér aukaföt.  Foreldrar eiga að koma með þann fatnað sem barnið þarfnast í leikskólanum, leikskólinn er ekki með aukaföt á börnin.  Það er gott að yfirfara fötin og halda þeim í lagi t.d. á teygjum, smellum og rennilásum.  Fjarlægja þarf allar reimar úr fatnaði barnanna vegna slysahættu.  Vinsamlega merkið föt barnanna vel og skilmerkilega, þá eru minni líkur á að fötin glatist.

Hvert barn þarf að hafa töskunni sinni:

Til útiveru:

 • Pollagalli
 • Tvennir ullarsokkar
 • Tvennir til þrennir vettlingar
 • Snjógalli, húfa, stígvél, kuldaskór
 • Þykk peysa/flíspeysa, flísbuxur

Aukaföt í körfu (tvennt af öllu)

 • Nærföt/samfella
 • Sokkabuxur
 • Sokkar
 • Peysa
 • Buxur
 • Bleiur og snuð fyrir þau sem þess þurfa

Lyfjagjöf á leikskólatíma

Kennarar leikskólans mega ekki gefa börnunum lyf. Ef barn þarf á lyfjum að halda, ber að haga lyfjagjöfinni þannig að lyfin séu gefin heima, en ekki í leikskólanum. Undantekning er gerð þegar um er að ræða lyf sem eru tekin að staðaldri eða um astmalyf.

Opnunartími leikskólans

Garðaborg er opin frá 7:30 til 17:00
Dvalartími er bundin af vistunarsamingi sem er gerður á milli foreldra og leikskólastjóra.

Slys á börnum

Veikist barn eða slasast í leikskólanum er strax haft samband við foreldra og brugðist við hverju tilfelli eftir bestu vitund.

Ef barn þarf að leita sér læknis hvort heldur á heilsugæslustöð eða á slysadeild leggja foreldrar út fyrir þeim kostnaði.  Foreldrar koma svo með kvittun fyrir útlögðum kostnaði á leikskólann.  Að því búnu er hægt að leggja inn á reikning hjá þeim sem greiddi fyrir þjónustuna.

Veikindi barna

Það er gert ráð fyrir að börnin taki þátt í öllu starfi leikskólans úti sem inni. Þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni. Útiveru er ekki sleppt nema í algjörum undantekningar tilvikum, ekki er hægt að hafa börnin inni nema í 2 daga samfellt eftir veikindi. Í leikskóla er alltaf meiri hætta á smiti og útbreiðslu algengra umgangssjúkdóma.

Ef barn veikist og fær hita, þarf það að dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólarhringa. Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn.

Ef barn er fjarverandi vegna veikinda í mánuð er greitt hálft gjald.Foreldrum er bent á að ef um svo miklar fjarvistir er að ræða vegna veikinda þarf að skila læknisvottorði.

Veikist barnið eða slasist í leikskólanum höfum við tafarlaust samband við foreldra og bregðumst við hverju tilfelli eftir bestu vitund.

Vistunartími barna

Við upphaf leikskóladvalar er gerður skriflegur samningur við foreldra um vistunartíma barnanna.  við biðjum foreldra að virða þennan samning, því fjöldi starfsmanna fer eftir viðveru barnanna á hverjum tíma.  Ef þörf verður á að endurskoða þennan samning þá vinsamlega hafið samband við leikskólastjóra.  Uppsögn á dvalarsamningi eða breytingar miðast við fyrsta hvers mánaðar og þarf að gera með eins mánaðar fyrirvara.  Gagnkvæmur uppsagnafrestur er einn mánuður og miðast við mánaðarmót.  Heimilt er að krefjast eins mánaðar greiðslu hafi reglu um uppsagnafrest ekki verið fylgt.

Fjöldi starfsmanna fer eftir fjölda og aldri barna.  Á bak við hvern leikskólakennara eru 8 barngildi.  Börn vega mismikið og fer það eftir aldri þeirra.  Þannig er starfsmannafjöldi skólans fundinn út og getur hann verið breytilegur frá ári til árs vegna aldursamsetningar barnanna.